Sía eftir bakgrunnsþáttum
Sýna fjölda staðfestra smita

Nánar um aðferðafræði og svörun
Í upphafi var tekið 1000 manna úrtak til að fá nægjanlega mörg svör fyrstu dagana. Næstu sjö daga á eftir var tekið 500 manna úrtak daglega og í kjölfarið af því 400 manna úrtak daglega. Ástæður þess að úrtaksstærðin var minnkuð var að nægjanlega mörg svör bárust daglega auk þess sem takmarkaður fjöldi meðlima er í netpanelnum. Með því að minnka úrtakið er hægt að taka fleiri úrtök áður en farið verður í að senda könnunina aftur á sömu meðlimi og hafa svarað áður. Þess skal þó getið að þótt sömu aðilar svari aftur þá dregur það ekki úr gildi niðurstaðnanna því könnuninni er ætlað að meta hvernig afstaða breytist eftir því sem faraldrinum vindur fram.
Að meðaltali berast um 130 svör á dag en fæst hafa þau verið 23 og flest 889 á þriggja daga tímabili. Vegna þess að svarfjöldi er á þessu bili má búast við nokkrum sveiflum milli daga og því skal varast að oftúlka breytingar milli stakra daga því óvissan er nokkur. Þetta á sérstaklega við þegar verið er að skoða afmarkaða bakgrunnshópa. Ef ákveðin stefnubreyting verður í afstöðu þjóðarinnar má hins vegar búast við að sjá gögnin stefna í þá átt.
Vegna þess að panelmeðlimir geta svarað í meira en 2 vikur eftir að könnun var send til þeirra er snúið að reikna þátttökuhlutfall. Niðurstöður úr fyrstu þremur úrtökunum gefa hins vegar til kynna að þátttökuhlutfall sé um og yfir 50%. Gögnin eru ekki vigtuð en vitað er að svarhlutfall er alla jafna lægra meðal yngra fólks. Þá er svarhlutfall hærra meðal fólks sem hefur lokið háskólagráðu samanborið við þá sem ekki hafa lokið slíkri gráðu.

Nánar um netpanel Félagsvísindastofnunar
Netpanell Félagsvísindastofnunar samanstendur af fólki 18 ára og eldra á landinu öllu sem hefur samþykkt að taka þátt í netkönnunum á vegum stofnunarinnar. Netpanellinn byggist á tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá. Söfnun í netpanel á sér stað jafnt og þétt og fylgst er vel með samsetningu hans. Meðal annars er þess gætt að dreifing kyns, aldurs, búsetu, menntunar og tekna sé sem líkust því sem hún er meðal allra landsmanna, 18 ára og eldri. Með því að tryggja gæði netpanelsins með framangreindum hætti er möguleiki á að alhæfa um niðurstöður rannsókna sem byggjast á svörum úr honum.

Gögnin voru síðast uppfærð 1. september 2021. Ýttu hér til að opna mælaborðið í nýjum glugga.